banner

Maí í myndum

Maí

Síminn minn er fullur af myndum af sofandi Alberti, erfitt að standast þetta krúttlega andlit.

Maí 

Á spítalanum, á leið í PET-skanna. Það tekur alltaf á og fullt af tilfiningum sem koma upp. Allt gekk samt vel og niðurstöðurnar voru góðar. 

Maí 

Sýrenur, uppáhalds vorblómin mín. Sorglegt bara hvað þær blómstra stutt. 

Maí  

Ostrur og "kräftor"með góðum vinum. 

Maí  

Afmælismánuðurinn hennar Ölmu, 15 ára! Fagnað með blöðrum, pökkum og út að borða á uppáhalds veitingastaðnum. 

Maí  

Fredrik gaf út matreiðslubók með pólitísku ívafi, bókin er æðisleg og útgáfuteitið var ekki síðra. 

Maí  

Stóru, en samt líka litlu, krúttin mín.

Maí  

Ég er búin að vera hrikalega þreytt allan mánuðinn og sólarhringur í Stokkhólmi tók vel á, gott að eiga einn mjúkan að kúra með. 

Maí  

Fékk blóðgjöf til að hressa mig við. Hélt að það tæki enga stund en það tók fimm klukkutíma! Mun undirbúa mig betur ef ég þarf að endurtaka þetta. 

Maí  

Rósirnar blómstra í Lundi og gera göngutúra með Alberti enn notalegri.   

Maí  

Grasagarðurinn blómstrar líka. 

Maí

Göngutúr við hafið. 

Maí  

Og fyrsti strandardagurinn með Ölmu, ein lá í sólbaði í bikiníi og hin fullklædd með derhúfu og sólgleraugu.


Endurvek bloggið

Það eru 11 ár síðan ég bloggaði síðast, en nú fékk ég löngun til að byrja aftur. Aðalástæðan fyrir því er sú að ég greindist nýlega með brjóstakrabbamein í þriðja sinn og í þetta skiptið er það því miður talið krónískt. Það þýðir að ekki er lengur hægt að lækna krabbameinið en ég er byrjuð á lyfjum sem vonandi halda því niðri.


Ég greindist fyrst árið 2019, þegar ég var 34 ára, með hormónanæmt krabbamein í vinstra brjósti og fór í gegnum skurðaðgerð og lyfjameðferð. Í miðri meðferð kom í ljós að ég bæri BRCA2-genabreytingu, og eftir lyfjameðferð fór ég því í tvöfalt brjóstnám með uppbyggingu. Nokkrum mánuðum síðar voru eggjastokkarnir líka fjarlægðir, þar sem BRCA eykur líkur á krabbameini í eggjastokkum og ég vildi ekki taka neina áhættu. 


Eftir þetta ár jafnaði ég mig vel, en 2023 fór ég að fá mikinn verk í vinstri handlegg, aðallega á nóttunni. Ég var því send í myndatöku og rannsóknir sem sýndu að krabbameinið var komið aftur. Eins og í fyrra skiptið var það hormónanæmt og ég fór í gegnum enn strangari lyfjameðferð og einnig geislameðferð. Á milli meðferða hef ég verið á mismunandi lyfjum til að minnka líkur á endurkomu, og eftir seinni meðferðina hef ég einnig farið reglulega í jáeindaskanna.


Í einni myndatöku nú á þessu ári sáust breytingar, og eftir sýnatöku var staðfest að krabbameinið væri komið aftur. Greining á krabbameinsfrumum sýndi að það hefði breyst og væri nú þríneikvætt, eða ekki lengur hormónanæmt. 


Nýlega fór ég í skanna til að athuga hver staðan er, og í síðustu viku fékk ég bestu mögulegu niðurstöðu, eins og er sést krabbameinið ekki og lyfin eru því að virka vel. Ég fer aftur í myndatöku eftir þrjá mánuði og vona að niðurstaðan verði sú sama. Ég held allavega í vonina um að lyfin geri sitt eins lengi og mögulegt er. Mér skilst að krabbameinið verði oft ónæmt fyrir lyfjunum með tímanum en ef það gerist er möguleiki fyrir mig að fá aðra lyfjameðferð og ónæmismeðferð. 


Lyfin sem ég tek hafa farið ágætlega í mig en upp á síðkastið hef ég verið að berjast við ofsaþreytu, blóðprufa í síðustu viku sýndi svo að ég væri orðin of blóðlítil og því fékk ég blóðgjöf í gær til að hressa mig við. Finn strax mun á mér og vona að þessi nýja orka endist í áfram. 


Ég var ekki viss hvort að ég ætti að skrifa á sænsku eða íslensku en íslenskan varð fyrir valinu, en kannski munu eitt og eitt sænskt orð laumast með. Eftir 16 ár í Svíþjóð er íslenskan aðeins ryðguð og sérstaklega allur orðaforði í kringum veikindin. Ætla ekki endilega að eingöngu skrifa um veikindin hér, heldur líka um lífið almennt. 


Síðustu árin hef ég verið í kennaranámi í Malmö, en varð því miður að taka enn eina pásuna núna í vor og framtíðin er frekar óljós núna. Hugsa að það verði gott að nota þessa síðu til að deila myndum, hugsunum og fréttum og vona að þið viljið fylgjast með. 


Síðasta helgi

Emil og Alma á ströndinni í Österskär
Emil fann leynistað þar sem hann byggði hús, þar sem enginn gat séð okkur en við gátum séð alla. 

Myndir frá því um síðustu helgi, sem var góð, Emil tók þátt í sínu fyrsta hlaupi og hljóp 1km og Fredrik hljóp 10. Við Alma hlupum ekki en fórum í afmæli og borðuðum nammi. Þessa helgina er annað barnaafmæli á dagskránni, fjölskyldumyndataka í Stokkhólmi og ýmislegt fleira skemmtilegt.

Alma á miðvikudegi


Alma sat fyrir á miðvikudagsmorgni, fyrir leikskólinn. Ég smellti af nokkrum myndum og svo hlupum við út í rigninguna. Elska fyrstu myndina...og hinar auðvitað líka. 

Í morgun vorum við á sumarskemmtun í leikskólanum...þeirri síðustu hjá Emil, sem byrjar í skóla í haust. Miklar tilfinningar í gangi...hann hlakkar til að byrja í skólanum og á sama tíma finnst honum erfitt að skilja við leikskólann. Það gleymist þó örugglega um leið og skólinn byrjar.