Síðasta helgi

Emil og Alma á ströndinni í Österskär
Emil fann leynistað þar sem hann byggði hús, þar sem enginn gat séð okkur en við gátum séð alla. 

Myndir frá því um síðustu helgi, sem var góð, Emil tók þátt í sínu fyrsta hlaupi og hljóp 1km og Fredrik hljóp 10. Við Alma hlupum ekki en fórum í afmæli og borðuðum nammi. Þessa helgina er annað barnaafmæli á dagskránni, fjölskyldumyndataka í Stokkhólmi og ýmislegt fleira skemmtilegt.

Alma á miðvikudegi


Alma sat fyrir á miðvikudagsmorgni, fyrir leikskólinn. Ég smellti af nokkrum myndum og svo hlupum við út í rigninguna. Elska fyrstu myndina...og hinar auðvitað líka. 

Í morgun vorum við á sumarskemmtun í leikskólanum...þeirri síðustu hjá Emil, sem byrjar í skóla í haust. Miklar tilfinningar í gangi...hann hlakkar til að byrja í skólanum og á sama tíma finnst honum erfitt að skilja við leikskólann. Það gleymist þó örugglega um leið og skólinn byrjar.
Þrír mánuðir í Kaliforníu

Fyrir  rúmu ári dvöldum við fjölskydan, í þrjá mánuði í Santa Barbara í Kaliforníu. Fredrik var boðið að heimsækja háskólann þar til að vinna að doktorsritgerðinni sinni, en ég og krakkarnir vorum í fríi og  nutum við þess að skoða okkur um og njóta sólarinnar.  


Flest allt við dvölina var yndislegt, eins og það að vakna við sólina á morgnana, setjast út á svalir með kaffibollann og fylgjast með kolibrí fuglunum flögra í kring. Það að geta farið með krakkana á ströndina og í stóra garðinn rétt hjá húsinu okkar, sem var eins og ævintýraland fyrir krakkana, með litlum göngustígum, fallegum blómum og stóru vatni með skjaldbökum. Þrátt fyrir allt þetta góða, þá söknuðu krakkarnir leikskólans og vina sinna í Svíþjóð, og því voru þrír mánuðir alveg passlegur tími.


Áður en við kvöddum Kaliforníu ferðuðumst við til Carlsbad, þar sem Legoland er staðsett, en við vorum búin að lofa krökkunum ferð þangað.  Daginn fyrir stóra Legoland daginn, gistum við á hóteli við ströndina og lékum okkur í hótelsundlauginni allan daginn, við rétt tókum okkur pásu til þess að borða kvöldmat og stukkum svo aftur í sundlaugina. Þegar við tókum eftir því að sólin var alveg að fara að setjast, klæddum við okkur í snatri, hlupum niður að strönd  og fylgdumst með sólsetrinu. 


Þessi dagur var svo ofboðslega góður í alla staði, krakkarnir voru í sínu besta skapi allan daginn (í minningunni rifust þau ekkert, sem ég þó á erfitt með trúa) og Emil spyr mig stundum, hvort ég muni hvað það var fallegt að horfa á sólina setjast þegar við fórum í Legoland.  Þegar ég hinsvegar spyr hann hvort hafi verið skemmtilegri dagur, dagurinn á hótelinu eða þegar við vorum í Legolandi, þá á Legoland vinninginn.  


Ég lét stækka fyrir mig mynd, af ströndinni í Carlsbad, til að hengja upp á vegg inni í stofu hjá okkur og er bara nokkuð ánægð með hana. Nú getum við ferðast aftur til Carlsbad í huganum, þegar okkur hentar.