Síðustu tveir mánuðir hafa liðið hratt, og of marga daga hef ég verið að berast við mikla þreytu. Nánast allan júní var ég með hálsbólgu og annað slagið hita en í byrjun júlí eftir háan hita í nokkra daga var ég lögð inn í rannsóknir. Þá kom í ljós að ég var komin með sýkingu sem var sem betur fer ekki alvarleg og ég varð strax hressari af sýklalyfjum. Blóðprufur sýndu þó að ég var aftur orðin of blóðlítil og því fékk ég blóðgjöf og ákveðið var að lækka skammtinn af Talzenna, lyfjunum sem ég tek á hverjum degi.
Það hræðir mig að lækka skammtinn en ég treysti læknunum og skil að það er mikilvægt að líkaminn þoli lyfin eins lengi og mögulegt er. Ég er allavega búin að vera aðeins hressari upp á síðkastið, sem gleður mig.
En sumarið er ekki bara búið að vera veikindi, við höfum getað gert ýmislegt. Í júní ferðuðumst ég og Fredrik til uppáhalds borgarinnar okkar, Barcelona. Mjög róleg og ljúf ferð, þar sem hálsbólgan setti smá strik í reikninginn, en með hjálp verkjalyfja frá spænskum apótekum (held ég hafi prófað allt sem hægt var að prófa) gat ég notið borgarinnar.
Við fórum í göngutúr á meðan við biðum eftir herberginu okkar, ég tók myndir í næstum hverju skrefi og Fredrik tók myndir af mér að taka myndir.
Tókum pásu á gamla uppáhalds kaffihúsinu okkar og fengum okkur tapas og clöru.
Gamla hverfið okkar ❤️️
Elska hversu afslöppuð borgin er, ófullkomin en falleg.
Við borðuðum enn meiri tapas, að þessu sinni á El Xampanyet í Born. Biðum í hálftíma í röð fyrir utan eftir borði og það var vel þess virði. Maturinn var æðislegur og þjónustan og stemningin upp á tíu.
Lestur við sundlaugina yfir heitasta tímann.
Röltum um borgina áður en flestir aðrir túristar voru komnir á stjá.
Fyrir flugið heim fengum við okkur hádegismat á La Boqueria, höfum aldrei borðað þar áður og kannski aðallega litið á markaðinn sem ferðamannagildru. En maturinn var góður og gaman að fylgjast með starfsfólkinu spana og vara fólk við vasaþjófum.
Í næstu viku er komið að myndatökunni sem ég fer í á þriggja mánaða fresti. Ég reyni að hugsa ekki of mikið um það og tek því þegar þar að kemur, krossa fingur og vona að niðurstöðurnar verði jafn góðar og síðast.
Dásamleg ferð hjá ykkur 🥰
ReplyDeleteYndislegar myndir úr frábæru ferðinni ykkar. Mikið er gaman að þið hafið farið til ykkar upphafs borgar 🥰, takið ykkur assgoti vel út þar bæði tvö. Gott að lesa bloggið og fá update. Ást og elska ❤️
ReplyDelete❤️😘
ReplyDelete